laugardagur, mars 24, 2007

-Tilgangur lífsins-

Tilgangur lífsins? Hvernig get ég verið ein inn í mér, ein inni í hausnum á mér. Og enginn annar kemst þangað – hversu mikið sem ég vildi leyfa það. Hvernig getur annað fólk verið með samskonar sjálf og ég – án þess að ég muni nokkurn tímann fá að skyggnast inn í hausinn á því. Hvað er ég? Hvað verður um sjálfið mitt þegar ég dey? Verður sjálfið mitt einn stór og ruglingslegur draumur? Af hverju geri ég allt sem ég geri? Af hverju finnst mér mikilvægt að ganga í skóla? Til að geta lifað betra lífi – seinna? Hvað með núið? Hvenær kemur seinna-ið? Það kemur aldrei. Ég lifi alltaf í núinu. Ég hlýt að ganga í skóla til að njóta núsins – til að njóta þess sem það gefur mér að læra. Af hverju ætti ég annars að hafa fyrir því? Ég hlýt að sækja um vinnu til að njóta þess á hverjum degi að gera eitthvað sem ég veit að ég geri vel – eitthvað sem gefur mér lífsgildi – á meðan á því stendur. Af hverju ætti ég annars að gera það – til að ég verði hamingjusamari seinna? Tilgangur lífsins hlýtur einfaldlega að vera að lifa í núinu - að njóta þess sem gerist núna – því seinna-ið kemur aldrei.



Ætli maður viti að maður hefur verið of lengi að læra einn á bókasafninu þegar svona hugsanir leita á mann á laugardagskvöldi?