miðvikudagur, maí 30, 2007

Heyrst hefur að skrif mín hér þyki nokkuð súr á köflum og lítið upplýsandi. Því vil ég fræða fólk um það að ég er flutt til Íslands og bý nú með ástarmaka mínum á Hverfisgötunni í hinni nýju og litríku íbúð. Þar hyggst ég verja næstu mánuðum í lokaverkefnavinnu sem er ennþá á frumstigi. Málningar og litavinnunni er þó ekki lokið enn og margt af fallegum hlutum verma ennþá kassa í stofunni. Það er samt gott að eiga nýtt heima sem er meira að segja heima heima (nú á ég bara eitt heima en ekki þrjú sem er mikill léttir - tja kannski eitt og hálft).

Þá vitið þið það.

þriðjudagur, maí 29, 2007

Litablogg

Gulur og hvítur og fjólublár og blár og málarahvítur - þetta eru allt fallegir litir í heimilislitrófinu á Hverfisgötunni. Litirnir sem gefa lífi mínu lit er ég sit og les og reyni að finna út úr því hvað í ósköpunum ég geti nú skrifað heila mastersritgerð um. Ekki skemma fyrir sterkfagurbleiku rúmfötin nýju sem gæða litrófið ákveðinni dýpt og gleðja augun þegar tekin er hvíld frá amstrinu. Bleiki liturinn harmónerar líka vel við dauffjólubláa gluggavegginn í svefnherberginu.

Lifum lífinu í lit.