fimmtudagur, október 18, 2007

Hvað er í matinn?

Hver kannast ekki við þessa eilífðarspurningu og þá raun sem það getur verið að leitast við að svara henni? aftur og aftur og aftur...

Hér er lausnin: Hvaðerímatinnpunkturis

Nú geta þreyttar húsmæður og hugmyndasnauðir húsfeður hætt að hafa alltaf bara hakk og spaghettí og fajitas til skiptis og hrísgrjónagraut til hátíðarbrigða því hvaðerímatinnpunkturis tekur af okkur ómakið. Þetta kallar maður þjónustu!

Vildi bara að það væri líka til svona: hvareriðnaðarmaðurinnpunkturis :)

Yfir og út

mánudagur, október 15, 2007

Þjóðarátak

Jæja þá. Nú er kominn tími til að láta gamminn geysa um iðnaðarmenn. Ég legg til þjóðarátak um það að gefa öllum iðnaðarmönnum landsins SKIPULAGSBÓK að gjöf - helst með blikkandi ljósi, ílu og titrara sem gefa til kynna þegar þeir eru ekki að mæta á staðinn sem þeir höfðu lofað sér þann daginn.

Þeir sem vilja styrkja þetta málefni vinsamlegast leggið þúsund krónur inn á reikninginn minn!

Annars er þetta nú allt í lagi því ég - og annað fólk - hef nú ekkert annað mikilvægara að gera við tímann en að bíða spennt heima eftir iðnaðarmönnum sem hvorki láta sjá sig né í sér heyra. Að þurfa að bíða heima eftir iðnaðarmanni sem aldrei kemur er til dæmis ljómandi afsökun til að skrópa í vinnu dag eftir dag eftir dag með góðri samvisku. Ekki satt?

Og hvers vegna ætti maður að vilja fara út úr húsi í heilan dag þegar maður gæti mögulega átt von á því að iðnaðarmaður sjái sér ef til vill fært að mæta "einhvern tímann" þann daginn? Þá unir maður sér glaður við að sitja heima í rólegheitunum og njóta þess að fá ef til vill, mögulega, og ef lukkan er með manni, heimsókn þann daginn frá iðnaðarmanninum sem lofaði að koma í fyrradag.

Já, ég sé ekki aðra lausn en að styðja dyggilega við bak iðnaðarmanna landsins með veglegri gjöf sem gæti hjálpað þeim að muna hvert þeir ætla nú að fara og hvað þeir ætla að gera upp á hvern einasta dag - því það virðist vera landlægur og alvarlegur veikleiki þessarar, annars þörfu og hraustu stéttar, að skrifa ekkert hjá sér og gleyma.

Tökum nú höndum saman og styðjum strákana okkar!