laugardagur, mars 29, 2008

Svona er Ísland lítið land....

Í gær hringdi ég í skattinn til að fá útskýringar varðandi skattaskýrsluna eins og gengur og gerist. Það var nú ekki í frásögu færandi svo sem - nema bara hvað - í þetta sinn fæ ég samband við mann sem í rólegheitunum hlustar á mig og svarar spurningum mínum. Það gengur þó ekki alveg að leysa úr málinu og það endar með að hann fer sjálfur inn í skýrsluna mína á vefnum til að reyna að finna út úr hlutunum. - Í sjálfu sér er þetta góða viðmót eitt og sér í frásögu færandi miðað við sum önnur símtöl sem ég hef átt við skattinn í gegnum tíðina - EN það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja ykkur frá HELDUR það að þegar maðurinn sá hinn sami sér skýrsluna mína segir hann "Já átt þú Hverfisgötuna?" Já, segi ég. Haldiði þá að komi ekki bara í ljós að þessi ókunni maður sem var að hjálpa mér við að telja fram til skatts í gegnum símann hafi búið í íbúðinni minni, fimmtu hæð til vinstri, áður en ég fæddist! Haldiði ekki bara að afi hans og amma hafi byggt húsið og hann sofið undir súðinni í eldhúsinu mínu með konunni sinni til nokkurra ára á meðan ég var ekki einu sinni komin í hönnun. Þetta fannst okkur nú skemmtileg tilviljun og fékk ég að heyra nokkrar góðar sögur af húsinu og hvernig það hafi reynst að sofa undir súðinni góðu. Hann bað að heilsa góðu öndunum í húsinu. Og ég skilaði því.

fimmtudagur, mars 27, 2008

Kaffi kaffi kaffi


Kaffi bjargar deginum.

Hvernig stendur á því að manni er alltaf kallt á morgnana? Alveg fram eftir öllu bara. Þá er gott að fá kaffi í kroppinn. Kaffi í kroppinn.

Kaffi kaffi kaffi.

miðvikudagur, mars 12, 2008

List dagsins


List dagsins er málaralist Gustavs Klimt. Um hann má fræðast á wikipedia og einnig á sérlega skemmtilegri síðu sem heitir iKlimt.

Listunnendur eru hvattir til að líta á verk Klimts enda undurfögur - viðkvæmar sálir ættu þó að varast klámfengnar teikningar hans.

Ég heillaðist af mynd Klimts, Kossinum, þegar ég var á ferð í Vínarborg í fyrra og festi kaup á eftirprentun af því. Plakatið bíður þó enn innrömmunar og upphengingar vegna framtaksleysis míns. Fyrir skömmu viltist ég inn í búðina Hitt hornið - ef ég man nafnið rétt - sem er á horni Laugarvegs og Snorrabrautar, lítil og skrítin búð með furðulegri samsetningu plakata, ramma, ullarvara og jólaskrauts á tilboði. Þar fann ég nokkrar myndir eftir Klimt ýmist á póstkortum eða plakötum og mundi þá eftir óinnrömmuðu myndinni minni og aðdáun minni á list Gustavs Klimt. Svo nú deili ég henni með ykkur lesendur góðir. Myndin hér til hliðar heitir Judith og höfuð Holofernes - ekki veit ég nú hver þessi Holofernes er en Judith er tignarleg.

Næst þegar þið komið í heimsókn fáið þið ef til vill að berja Kossinn augum í stofunni hjá mér.

Hver veit.

þriðjudagur, mars 04, 2008

Fantasía konu sem lifir einföldu lífi

Það er ekki eðlilegt hvað ég fantasera mikið um að prjóna...

...svona miðað við hvað ég prjóna í rauninni lítið og kann svo sem ekkert mikið meira en þetta gamla góða - slétt og brugðið.


Þegar ég verð stór ætla ég að verða heimsins besta prjónakona!