miðvikudagur, mars 12, 2008

List dagsins


List dagsins er málaralist Gustavs Klimt. Um hann má fræðast á wikipedia og einnig á sérlega skemmtilegri síðu sem heitir iKlimt.

Listunnendur eru hvattir til að líta á verk Klimts enda undurfögur - viðkvæmar sálir ættu þó að varast klámfengnar teikningar hans.

Ég heillaðist af mynd Klimts, Kossinum, þegar ég var á ferð í Vínarborg í fyrra og festi kaup á eftirprentun af því. Plakatið bíður þó enn innrömmunar og upphengingar vegna framtaksleysis míns. Fyrir skömmu viltist ég inn í búðina Hitt hornið - ef ég man nafnið rétt - sem er á horni Laugarvegs og Snorrabrautar, lítil og skrítin búð með furðulegri samsetningu plakata, ramma, ullarvara og jólaskrauts á tilboði. Þar fann ég nokkrar myndir eftir Klimt ýmist á póstkortum eða plakötum og mundi þá eftir óinnrömmuðu myndinni minni og aðdáun minni á list Gustavs Klimt. Svo nú deili ég henni með ykkur lesendur góðir. Myndin hér til hliðar heitir Judith og höfuð Holofernes - ekki veit ég nú hver þessi Holofernes er en Judith er tignarleg.

Næst þegar þið komið í heimsókn fáið þið ef til vill að berja Kossinn augum í stofunni hjá mér.

Hver veit.

Engin ummæli: