laugardagur, mars 29, 2008

Svona er Ísland lítið land....

Í gær hringdi ég í skattinn til að fá útskýringar varðandi skattaskýrsluna eins og gengur og gerist. Það var nú ekki í frásögu færandi svo sem - nema bara hvað - í þetta sinn fæ ég samband við mann sem í rólegheitunum hlustar á mig og svarar spurningum mínum. Það gengur þó ekki alveg að leysa úr málinu og það endar með að hann fer sjálfur inn í skýrsluna mína á vefnum til að reyna að finna út úr hlutunum. - Í sjálfu sér er þetta góða viðmót eitt og sér í frásögu færandi miðað við sum önnur símtöl sem ég hef átt við skattinn í gegnum tíðina - EN það var nú ekki það sem ég ætlaði að segja ykkur frá HELDUR það að þegar maðurinn sá hinn sami sér skýrsluna mína segir hann "Já átt þú Hverfisgötuna?" Já, segi ég. Haldiði þá að komi ekki bara í ljós að þessi ókunni maður sem var að hjálpa mér við að telja fram til skatts í gegnum símann hafi búið í íbúðinni minni, fimmtu hæð til vinstri, áður en ég fæddist! Haldiði ekki bara að afi hans og amma hafi byggt húsið og hann sofið undir súðinni í eldhúsinu mínu með konunni sinni til nokkurra ára á meðan ég var ekki einu sinni komin í hönnun. Þetta fannst okkur nú skemmtileg tilviljun og fékk ég að heyra nokkrar góðar sögur af húsinu og hvernig það hafi reynst að sofa undir súðinni góðu. Hann bað að heilsa góðu öndunum í húsinu. Og ég skilaði því.

2 ummæli:

Mína sagði...

Jahérnahér, það er ekki að spyrja að ævintýrum húsmóðurinnar í Hverfó :)

Skemmtileg saga

Ýrr sagði...

jii, en skemmtileg tilviljun!