miðvikudagur, júlí 25, 2007

púha

púha...það er ekkert grín að hafa titilinn "húseigandi" - allur dagurinn hefur farið í símtöl og samtöl við pípara, nágranna, fasteignasölu og fyrri eiganda - og fleiri en eitt og fleiri en tvö við flesta aðila. Nú er ég kominn með spenning í magann og skjálfta af öllu ruglinu. Málin þó líklegast eitthvað að leysast og allt í góðu - en tekur einbeitinguna frá öllu öðru á meðan. pÚhA

mánudagur, júlí 16, 2007

Sumarsæla

Sumarbústaðasæla átti sér stað um helgina. Við Óli lögðum af stað í Skorradalinn hvort í sínum bíl...svona er nú bílaveldið á manni :) með sinn hvorn einkabílstjórann - á föstudaginn var. Veðrið lofaði góðu og fjögur(við óli og einkabílstjórarnir)lögðum við af stað í fjallgöngu á Skessuhornið ógurlega. Þúfur og ár voru sigraðar við mismikla gleði þó. Ég var ekki jafnglöð alla leiðina allavega - enda ekki mikil fjallageit þó að steingeit sé. Það var nú samt indælt að dröslast þetta í svona góðu veðri og kappið jókst eftir því sem ofar dró. Þegar grasið var við það að enda og möl og grjót að taka við fannst mér nú þó nóg komið og farið að hvessa heldur mikið og ákvað að snúa við við annan mann (aðra konu). Fræknir fjallagarparnir úr hinum bílnum héldu áfram inn í þokuna. Mér leist nú ekki á blikuna þegar þeir hringdu tveimur tímum seinna og sögðust þá vera á toppnum, á fjórum fótum í klettunum með þverhnípið fyrir neðan sig. Glaðir komu þeir svo heim sex tímum eftir að lagt var af stað - en þá höfðum við stelpurnar sturtað okkur, opnað vínflöskuna, útbúið matinn og beðið, nartað í kex og osta og beðið og beðið. Grillmaturinn var loks snæddur um miðja nótt. Södd og sæl fórum við í háttinn og sóluðum okkur það sem eftir lifði helgar. Nú er ég bara ein brunarúst - sæl og glöð eftir góða helgi og nýt þess að blogga um atburði helgarinnar í stað þess að lesa greinina um small firm internationalisation - því það er svo gott að blogga á bókhlöðunni!

fimmtudagur, júlí 12, 2007

obbobbobbb

Mikið óskaplega líður tíminn hratt. Maður skrifar að það sé að koma helgi og veit ekki af því fyrr en það er bara AFTUR að koma helgi! Og hvað varð manni úr verki síðan síðast? Tja það er nú góð spurning. Sumarið er tíminn. En hvert fór tíminn? Því sumarið er hálfnað - svo gott sem. Ekki það að margt skemmtilegt hefur drifið á daga mína það sem af er liðið sumri, kaffiboð og afmæli og matarboð og sólarhangs og sundlaugagrín og leikhúsferð og ég veit ekki hvað og hvað...og ritgerðaskrif...ha? bíddu ritgerð?

obbobbobbb

fimmtudagur, júlí 05, 2007

Það er að koma helgi!

þriðjudagur, júlí 03, 2007

sunnudagur, júlí 01, 2007

Nýr lífsstíll?

Kaffiofgnótt á laugardagsmorgnum í stað skemmtanaofgnóttar á föstudagsnóttum....

Í stað þess að fara út í öl í gærkvöldi, sem var föstudagskvöld, ákváðum við hjúin að fara snemma að sofa og vakna snemma í morgun, á laugardagsmorgni, svona til að prófa líf morgunhananna einu sinni. Það tókst með ágætum að vakna um níu leytið - vorum svo komin út á Laugaveg um klukkan tíu. Tveir kaffibollar á fastandi maga úti í Mallorkaveðri, sitjandi fyrir utan tíu dropa, hlustandi á dönsku gamalmennin og amerísku gamalmennin og sitt hvað fleira sem fyrir eyrum varð í túristaparadísinni Reykjavík. Einu sinni talaði maður um að það væri ekki þverfótandi fyrir Íslendingum á Strikinu - nú er ekki þverfótandi fyrir dönum á Laugaveginum! Svona breytist nú sitt hvað með tímanum. Jæja, því næst var förinni heitið í Skífuna að hlusta á vel valda nýja íslenska tónlist. Þar hrifumst við einna helst af B.Sig og Fnyki og ákváðum að styrkja þessa listamenn í stað þess að ræna þeim á netinu...góðverk dagsins myndi ég segja. Röltum því næst niður á Austurvöll, sóluðum okkur meira og drukkum meira kaffi - ennþá á fastandi maga - úr því varð góður magaverkur - þó betra að vera með kaffimagaverk en áfengisælupest (góður punktur!) Sátum í þónokkurn tíma í sólinni, skoðuðum mannlífið og nutum. Skoðuðum svo Austurríkið og dýrðirnar þar og röltum í rólegheitum heim á leið með viðkomu í bakaríinu. Smurðum nestiskörfu og fórum í pikknikk í nýja garðinum hjá Hannesi. Vorum þar í allnokkurn tíma áður en leiðin lá heim á ný............og þá var klukkan rétt rúmlega tvö - kannski hálfþrjú!!!! ...og allur dagurinn eftir bara!!! Vóóóóó!!!!! HA??? Já, svona getur verið ágætt að vera morgunhani um helgar.

Eftir þetta erum við búin að setja saman Ikea dót, taka upp úr kössum og gera fínt hérna heima, fá þrjár heimsóknir - sem ekki sköruðust - elda dýrindis mat og auk þess heklaði ég sex dúllur (bara 37 eftir núna) og kláraði að prjóna bolinn sem ég byrjaði á fyrir tveimur árum. Morgunstund gefur líklegast bara gull í mund eftir allt saman.

Nú er bara spurningin hvort þessi nýjung sé komin til að vera...