mánudagur, október 23, 2006

Það er allt að verða vitlaust hérna

Í dag er haldið upp á 50 ára byltingarafmæli hér í Búdapest. 1956 er ártal sem allir muna, þegar Ungverjar risu upp á móti sovéska risanum og kröfðust þess að Sovéskir hermenn yfirgæfu landið. Það má lesa meira um byltinguna á BBC vefnum.

Aftur á móti, vegna atburða síðastliðinna vikna eru friðsamleg hátíðahöld að breytast í hörðustu mótmæli seinni ára. Lára Kristín Skúladóttir er á staðnum og talar frá Búdapest þar sem óeirðir eiga sér stað fyrir utan gluggann. (Mamma, þetta verður allt í lagi!)

Klukkan fjögur í nótt þegar ég var rétt svo hálfnuð við lestur masterpíssins hans Óla míns, sem hann bæ ðe vei skilaði inn í dag og er þess vegna orðinn fullvaxta maður, varð ég fyrst vör við læti og lúðrablástur. Skrúðganga mótmælenda strollaði upp götuna, fjórum hæðum fyrir neðan gluggann minn. Hópur óeirðalögrelumanna gekk í humátt á eftir og fylgdist með því að hópurinn hegðaði sér skikkanlega.

Um miðjan daginn í dag mátti svo aftur sjá stóran hóp fólks koma kallandi slagorð, með fána og lúðra frá vinstri hlið þegar horft er út um gluggann í stofunni. Frá hægri hlið í fjarska mátti sjá stóran hóp óeirðarlögreglu með trukk í fararbroddi. Hóparnir tveir mættust rétt fyrir utan hjá gluggann minn. Þegar hóparnir nálguðust hvorn annan var rútu ekið þvert á milli hópanna. Mótmælendur veitust að rútunni, hrópuðu og kölluðu og sjá mátti marga unga herramennina vel tilbúna í tuskið með lambúshettur og klúta utan um vitin. Það kom sér líklega vel þegar byrjað var að kasta táragassprengjum í átt að mótmælendunum. Stuttu síðar var vatni sprautað á lýðinn og gúmmískotum skotið. Mótmælendurnir hörfuðu fljótt svo sem og gatan orðin auð en síðan hafa hljómað sírenuvæl og hvellir og rútur fullar af lögreglumönnum hafa þotið fram hjá. Einnig mátti sjá hóp af hestalögreglumönnum fara fram hjá áðan. Rútan stendur enn á miðri götunni.

Það súra við þetta allt saman er að rétt í þessu sá ég svo glitta í smá flugeldasýningu sem er haldin hjá þinghúsinu og klukkan 19.56, eða eftir rúman klukkutíma er skipulagt að þjóðin sameinist í "The Minute of Freedom" - einnar mínútu þögn til að minnast byltingarinnar og byltingarhetjanna. Spurning hvort löggan og mótmælendurnir sameinist í smá breiki svona milli tarna?

Erfitt er að greina á milli skrúðgangna og hátíðarhalda í tilefni byltingarafmælisins og mótmælagangnanna segir á BBC - Lesa má um atburði dagsins hér.

Annars er ég nú bara hress. Held ég haldi mig bara heima í kvöld. Hlakka til að fá Óla til mín ekki á morgun heldur hinn og reyni að vera dugleg að læra þangað til. Læt nokkrar myndir fylgja með í tilefni dagsins.

Over and out.

(Og mamma, í alvöru, það er allt í lagi með mig og ég lofa að vera ekkert á flækingi!)

4 ummæli:

�engill sagði...

Vaaaaá Geðveikt!!! Passaðu þig bara á vondu köllunum.

d sagði...

Það er bara allt í gangi hjá þér eins og venjulega! En í alvöru sko þá ertu biluð að blogga um þetta, mamma fær slag !

Nafnlaus sagði...

geturdu ekki reynt tharna stingatánumuppímunn atridid aftur? Thad virtist virka fínt seinast.

Hvad segir Klára um thetta allt saman?

Nafnlaus sagði...

Jiiidúddamía! Mín bara í miðri hringiðunni! Þú valdir greinilega að fara til Búdapest á mest spennandi tímanum! ;)
Góða skemmtun með Óla þínum! :)