mánudagur, september 04, 2006

Sagan af Stefáni

Eftir þriggja daga dvöl í Búdapest sem að mestu hafði verið varið í íbúðaleit, skólastúss og rölt um bæinn, ákváðum við Óli að leggja leið okkar að kastalanum. Við tókum tramma yfir á Búda-síðuna og fundum fljótlega kláf sem tók okkur upp hæðina. Þegar upp var komið bjuggum við okkur undir að rölta um kastalasvæðið í rólegheitum þegar afar kátur karl vatt sér upp að okkur. Það fyrsta sem við sáum af honum var risastórt, rautt og flagnað nefið, ljósir úfnir lokkarnir og ennþá úfnara yfirvaraskeggið sem líktist helst gömlum og mikið notuðum kústi, síðara öðru megin. Við héldum í fyrstu að hér væri kominn glaðbeittur róni því lundin var svo létt og nefið svo rautt. Hann spurði okkur hvaðan við værum og hrópaði kátur: Reykjavík! til að sýna kunnáttu sína. Í ljós kom að hér var á ferð mikill menntamaður. Hann talaði í einni romsu með taktföstum hrynjanda, kynnti sig sem Alexay István og sagðist vera Ungverskur leiðsögumaður og bauð okkur þjónustu sína. Sagðist geta boðið okkur 45 mínútna túr um kastalasvæðið þar sem hann myndi segja okkur frá sögu staðarins og ekki síður segja frá öllum styttum og byggingum á ekki einungis fróðan heldur gamansaman hátt. Hann myndi auk þess svara öllum okkar spurningum af nákvæmni og heiðarleika og segja okkur frá stöðum borgarinnar sem einungis innfæddir gætu frætt okkur um. Þar að auki gætum við stoppað á leiðinni og gætt okkur á cappuchino ef svo lægi á okkur. Þetta var tilboð sem við gátum ekki hafnað. Við gengum af stað. Stefán lagði mikla áherslu á að finna góða staði til myndatöku og var mjög svo tilbúinn til að taka myndir af okkur við öll helstu monúment. Á hverju horni mátti finna tilefni til að taka nýja mynd – panorama view – með okkur skötuhjú í forgrunni að sjálfsögðu (Óla til mikillar ánægju enda mikið fyrir sviðsljósið). Góð lausn þótti okkur að fá Stefán sjálfan til að sitja fyrir á nokkrum myndum svona til að auka fjölbreytni myndasafnsins. Eftir margar gamansögur, leikræn tilþrif og fjöldann allan af myndum var komið að kaffistund. Stefán leiddi okkur inn um stórar dyr og sagði ákaft að hér væri að finna cappuchino. Við höfðum gengið fram hjá kaffihúsi á leið okkar og áttum von á einhverju svipuðu. Innan við dyrnar mátti finna gang með Nescafé sjálfsala. Hann mælti eindregið með choco cappuchino og sagði það vera alveg einstaka blöndu. Væri búinn að fá sér tvo bolla þá þegar þann daginn. Efir kaffið héldum við af stað á ný endurnærð, hlustuðum á frásögn karlsins um sögu þjóðarinnar, skildum oft á tíðum aðeins helming þess sem sagt var en höfðum þó gaman að. Að lokum komst vinur okkar að því að ætlun mín væri að dvelja fram að jólum í Búdapest. Við það dró hann upp blað og penna, skrifaði nafn og símanúmer ef vera kynni að ég vildi hitta hann á ný og sagði: Tell your friend you met a funny man with mustache!


Svo ef þú lesandi góður átt leið um Búdapest og langar til að eiga góða, gamansama og fræðandi stund með Stefáni þá færðu fúslega númerið!

Þetta var sagan af Stefáni.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sakna Stefáns og Láru.

Nafnlaus sagði...

æææjjj, Ólaskinnið... Stefáns meira en Láru?

Mig langar sko að hitta Stefán þegar ég fer til Búdó!

Ýrr sagði...

Ég sakna Láru.

Nafnlaus sagði...

pant fá númerið.... er þetta ekki annars Ástríkur?
kv.
Pekka sífulli!